GUNNAR ÞÓRÐARSON / Sagan.

Forsíða.

  Heim.

Meðlimir.

Sagan.

Myndir.

Útgefið efni.

Tónlist & Video.

Hvar eru menn í dag?

Gunnar Þórðarson. Borgarlistamaður Reykjavíkur 2014

  • Gunnar Þórðarson borgarlistamaður ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Einari Erni Benediktssyni að athöfn lokinni í Höfða í dag.
    Gunnar Þórðarson borgarlistamaður ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Einari Erni Benediktssyni að athöfn lokinni í Höfða í dag.

Gunnar Þórðarson er litríkt og afkastamikið tónskáld, snjall gítarleikari, hljómsveitarstjóri, útsetjari og upptökustjóri.  Hann er einn afkastamesti tónlistarhöfundur Íslendinga og hefur samið bæði dægurlög og sígilda tónlist – eftir hann liggja yfir 650 lög sem hafa verið gefin út á hljómplötum og auk þess hefur hann samið tónlist við kvikmyndir, söngleiki og leikverk.

Gunnar var einn af stofnendum hljómsveitarinnar Hljóma, sem heillaði Bítlakynslóðina á árunum 1963 til 1969 og hljómsveitarinnar Trúbrots sem kom í kjölfar Hljóma. Árið 1998 var hann einn af stofnendum ,,Guitar Islancio”, sem var valinn tónlistarhópur Reykjavíkur á menningarborgarárinu 2000 og ferðaðist víða um heim.

Á árunum 1982 til 2002 var Gunnar hljómsveitarstjóri á Broadway og setti þar upp fjölmargar vinsælar sýningar ásamt Agli Eðvarðssyni. Gunnar hefur samið tónlist við sjónvarpskvikmyndir s.s. Djáknann frá Myrká og Steinbarn, kvikmyndatónlist eins og við Agnesi, Reykjavík Reykjavík og Óðal feðranna og tónlist við söngleikina Á köldum klaka og Örfá sæti laus.

Á undanförnum árum hefur Gunnar Þórðarson snúið sér í auknum mæli að tónsmíðum og útsetningum stærri verka.  Í tilefni af Kristnitökuhátíðinni árið 2000 var frumflutt Heilög messa fyrir hljómsveit, kór og einsöngvara eftir Gunnar og fimm árum síðar skrifaði Gunnar aðra messu sem hann helgaði minningu Brynjólfs biskups í tilefni af því að 400 ár voru liðin frá fæðingu hans. Árið 2009 hélt Sinfóníuhljómsveit Íslands tónleika þar sem flutt var Söngbók Gunnars Þórðarsonar ásamt sjö einsöngvurum.

Óperan Ragnheiður eftir Gunnar, sem hann samdi við texta Friðriks Erlingssonar, var frumflutt í konsertformi í Skálholtskirkju sumarið 2013. Íslensku Tónlistarverðlaunin völdu Gunnar Þórðarson tónhöfund ársins fyrir tónlistina í óperunni og uppsetningu óperunnar í Skálholti tónlistarviðburð ársins 2013.

Er Íslenska óperan frumsýndi svo Ragnheiði í Hörpu í ársbyrjun var hún sýnd við metaðsókn og fádæma lof áheyrenda og gagnrýnenda – jafnt innlendra sem erlendra. Uppsetning Íslensku óperunnar var útnefnd til tíu Grímuverðlauna, og á Grímuverðlaununum í gærkvöldi hlaut Ragnheiður þrjár grímur þar sem hún var m.a. útnefnd sýning ársins og ópera Gunnars valin tónlist ársins 2014.  Gunnar hlaut Fálkaorðuna fyrir störf sín í þágu íslenskrar tónlistar árið 2001.

 


 

 

Mynd_0560258

GUNNAR ÞÓRÐARSON
Gunnar Þórðarson fæddist þann 4. janúar 1945 á Hólmavík en fluttist til Keflavíkur ásamt fjölskyldu sinni árið 1953. Hann vakti fyrst á sér athygli með Hljómum er þeir komu fram seinni hluta árs 1963. Reyndar hafði Gunnar þá þegar verið trommari með ónafngreindri hljómsveit Erlings Björnssonar og leikið á bassa með unglingabandinu Skuggum. En Gunnar endaði svo með gítarinn sem hljómsveitarhljóðfæri með Hljómum. Segja má að allt frá því að Hljómar komu fyrst fram hafi sveitin verið leiðandi í íslenskri popptónlist og héldu þeir því forystuhlutverki næstu árin.Árið 1965 kom út fyrsta smáskífa Hljóma en hún geymir einmitt fyrstu lögin eftir Gunnar sem þrykkt voru í plast. Reyndar voru bæði lögin með enskum texta þegar sveitin lagði þau fyrir útgefanda sinn Svavar Gests hjá SG hljómplötum, sem leist vel á en taldi það hins vegar af og frá að hafa enska texta á íslenskri plötu og fékk því Ólaf Gauk til að gera íslenska texta við lög Gunnars. Þetta voru lögin Fyrsti kossinn og Bláu augun þín, sem síðan hafa setið á bekk klassískra dægurlaga hér á landi og eru enn meðal þekktustu laga Hljóma. Gunnar Þórðarson varð örlagavaldur í heimi poppsins árið 1969 þegar valdir aðilar út Hljómum og Flowers tóku sig saman og stofnuðu Trúbrot, sem sumir kalla fyrstu súpergrúbbuna á Íslandi. Trúbrot starfaði fram á vormánuði 1973.
Þó svo að Gunnar væri yfirleitt upptekin þessi fyrstu tíu ár með þeim hljómsveitum sem hann  starfaði með gaf hann sér þó tíma til að rétta kollekum gullislegna hjálparhönd, til að mynda lék hann inn á fyrstu sólóplötu Björgvins Halldórssonar sem út kom 1970.
Eftir að Trúbrot hvarf ferðaðist Gunnar með Ríó tríóinu til Bandaríkjanna þar sem tríóið brá sér meðal annars í hljóðver. Gunnar átti eftir að spila mikið með tríóinu og varð loks meðlimur þess. Eftir heimkomuna ákváðu þeir félagar Gunnar og Rúnar Júlíusson að endurvekja Hljóma og stofnuðu um leið samnefnda útgáfu. Allt var lagt undir og þegar ljóst varð að hljómsveitin naut ekki sömu vinsælda og áður var ákveðið að skipta um gír og keyra allt í stuð. Það var gert undir merkjum Ðe lónlí blú bojs og dæmið gekk upp allt frá því lagið Diggy liggy lo kom út á smáskífu 1975. En sveitin sendi frá sér þrjár LP plötur og tvær smáskífur á því rúma ári sem hún lifði. Þann 3. febrúar 1975 fékk Gunnar Þórðarson úthlutað listamannalaunum, fyrstur íslenkra tónlistarmanna. Um sumarið fluttist Gunnar til Englands þar sem hann hóf að vinna að sinni fyrstu sólóplötu, sem heitir einfaldlega Gunnar Þórðarson. Platan innihélt níu vandaðar lagasmíðar eftir Gunnar sjálfan, sem auk þess lék á flest hljóðfæri sjálfur utan trommu og fiðlu. Þrátt fyrir góða dóma gagnrýnenda seldist platan hægt enda ekki að finna á plötunni smelli sambærilega þeim sem hann hafði samið t.d. fyrir Hljóma eða Ðe lónlí blú bojs.
Meðan hann dvaldi í Englandi vann hann að útsetningum á fyrstu barnaplötunni sem hann kom að og sú sló heldur betur í gegn. Þetta var platan Eníga Meniga þar semOlga Guðrún Árnadóttir söng inn lög og texta Ólafs Hauks Símonarsonar og er enn í dag talin ein besta barnaplata sem út hefur komið. Gunnar vann einnig að plötum Ðe lónlí blú bojs, sem komu til Englands til að taka þær upp auk jólaplötunnar Gleðileg jól, sem með árunum hefur laumað sér inn á annaðhvert heimili á landinu. Seinni hluta árs 1975 komu upp samstarfsörðugleikar milli Rúnars og Gunnars er vörðuðu útgáfufyrirtækið Hljóma og ákváðu þeir að slíta samstarfinu. Gunnar og Björgvin unnu saman að fyrri vísnaplötunni, Einu sinni var, ásamt enskum sessionspilurum. Platan er enn í dag meðal söluhæstu platna útgáfusögunnar. Seinni vísnaplata þeirra félaga, Út um græna grundu, kom út tveim árum síðar.Um líkt leyti og Einu sinni var, kom út fluttist Gunnar heim og stofnaði útgáfufyrirtækið Ýmsir sem gaf út einar níu plötur á árunum 1976-1979. Meðal annars tvær plötur sem hann vann með Lummunum og náðu þær metsölu. Afrakstur þeirra gerði honum kleift að senda frá sér sína aðra sólóplötu og í þetta sinn var hún tvöföld og kom út á merki Ýmsi árið 1987. Rétt eins og á fyrri plötunni  voru textarnir á ensku, þrátt fyrir að plötur með íslenskum textum gengju betur á markaðnum á þessum tíma. Að auki má finna á þessari plötu tvö ósungin lög sem Gunnar hafði samið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í huga. Þessi sólóplata, sem einnig heitir Gunnar Þórðarson, fékk ámóta viðtökur og sú fyrri, það er góða dóma en litla sölu.

Árið 1981 kom út platan Himinn og jörð sem er ein þeirra platna sem Gunnar á veg og vanda að án þess þó að þar komi fram að um eiginlega sólóplötu sé að ræða. Gunnar á lögin og útsetur þau ásamt því að spila og stjórna hljómsveit en söngur er í höndum valinna söngvara. Þar vantaði ekki smellina og lög eins og Fjólublátt ljós við barinn með Klíkunni, Út á lífið í flutningi Röggu Gísla, Þitt fyrsta bros með Pálma Gunnarssyni auk titillagsins í frábærum flutningi Björgvins Halldórssonar hafa haldið nafni skífunnar hátt á lofti í gegnum árin. Ári eftir að Himinn og jörð kom út vann hann plötu með Pálma Gunnarssyni sem bar nafn þeirra félaga en fór ekki hátt.

Árið 1985 kom út Borgarbragur Gunnars Þórðarsonar, en sú plata var síðar endurútgefin á CD og kom út sama dag og plata Bubba Morthens – Frelsi til sölu, sem sögð hefur verið fyrst íslenskra platna til að koma út á því formati fyrir íslenskan markað. Á Borgarbrag er hver gæðamolinn á fætur öðrum, Rokkarinn Gaggó vest sem Eiríkur Hauksson syngur, Steini strætó í flutningi Pálma Gunnarssonar og dúett þeirra Egils og Björgvins sem sló í gegn, Við Reykjavíkur tjörn, sem Gunnar samdi við ljóð Davíðs Oddsonar forsætisráðherra.

Árið 1986 útsetti Gunnar lög plötunnar Reykjavíkurflugur, sem gefin var út í tilefni 200 ára afmælis Reykjavíkur og var stór hluti plötunnar fluttur á tónleikum í miðbænum sem einn af hápunktum hátíðarhaldanna.

Ári síðar sendi Gunnar frá sér plötuna Í loftinu, sem einhverra hluta vegna fékk ekki þá athygli sem hún átti skylið. Síðan þá hefur Gunnar ekki sent frá sér eiginlega sólóplötu, en snúið sér í auknum mæli að því að semja fyrir aðra og má t.d. benda á leikritið Á köldum klaka, en lög verksins komu út á plötu 1991. Þá samdi Gunnar tónlistina fyrir kvikmyndina Agnesi 1996 sem kom út á samnefndri plötu, og árið 2000 kom út Heilög messa eftir hann í flutningi Aldamótakórsins og Kammersveitar Hafnarfjarðar.

Árið 1999 gaf svo þjóðlagatríóið Guitar Islancio út sína fyrstu plötu. En tríóið skipa þeir Gunnar Þórðarson gítar, Björn Thoroddsen gítar, Jón Rafnsson bassi. Tríóið hefur síðan sent frá sér tvær plötur auk plötu sem gefin var út fyrir erlendan markað. Þjóðlagatónlist og vandaður samleikur þeirra félaga hefur náð eyrum utan landsteinanna og hefur Guitar Islancio ítrekað verið boðið að spila erlendis.

Árið 2003 var annasamt ár hjá Gunnari Þórðar þegar tveir fortíðardraugar snéru aftur. Hljómar komu saman á nýjan leik og sendu frá sér plötu á vegum Sonet. Þá var Ríó Tríóið einnig vakið til lífs á nýjan leik og sendi einnig frá sér plötu, sem kom út á vegum Steinsnar, en Gunnar er höfundur flestra laga beggja þessara platna, að auki sinnti Gunnar talsvert spilamennsku bæði með áðurnefndum sveitum sem og Guitar Islancio. Og svona til að kóróna árið opnaði hann hreint ágæta heimasíðu á netinu..

Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru í sögu Gunnars sem sólóista, en afrek hans sem lagahöfundar og útsetjara spanna á fimmtahundrað verk á tugum platna.  Gunnar Þórðarson hefur í gegnum tíðina notið ákveðinnar virðingar og heiðurs, menn þurfa þó ekki að skoða feril hans lengi eða ýtarlega til að uppgötva að hann á það líka fyllilega skylið og meira til því eftir hann liggja margar af helstu perlum íslenskra popp- og dægurlaga.

© Bárður Örn Bárðarson

 

Enginn Íslendingur hefur samið eins mörg lög og Gunnar Þórðarson. Um 1980 var hann kominn langt upp fyrir þann sem hafði samið næstflest; Sigvalda Kaldalóns. Lög Gunnars er ekki aðeins að finna á plötum með poppmúsík, hann hefur samið kvikmyndatónlist, kynningastef fyrir útvarp og sjónvarp, einhvern urmul af auglýsingastefjum og sinfónísk verk, svo að eitthvað sé nefnt.

Hann fæddist á Hólmavík 4. janúar 1945 og fluttist til Keflavíkur átta ára gamall. Lengi vel benti fátt til þess að hann ætlaði sér að leggja tónlist fyrir sig en þegar hann var kominn í gagnfræðaskóla reyndi hann fyrir sér sem trommuleikari með skólahljómsveitinni Skuggum. Ekki átti trommuleikurinn þó við hann svo að næst varð gítarinn fyrir valinu. Það hljóðfæri hentaði honum öllu betur og ekki leið á löngu þar til hann var farinn að ógna bestu gítarleikurum Suðurnesja með öruggum leik sínum.

Gunnar varð fljótlega leiðtogi Hljóma, enda samdi hann lögin og kunni meira fyrir sér en hinir strengjaleikararnir. Það er mesta vitleysa að hann sé feiminn og hlédrægur. Hins vegar hefur hann alltaf verið athugull og yfirvegar hlutina með ískaldri ró. Hann veit nákvæmlega hvað hann vill þegar tónlistin er annars vegar og hann veit líka hvernig hann á að fá það fram, hvort sem hann þjálfar upp fyrir hljómplötuupptöku söngvara sem hann hefur uppgötvað eða fylgist með flutningi á eigin tónsmíð fyrir heila sinfóníuhljómsveit.

Upphaflega kenndi hann sjálfum sér á gítar en síðar lærði hann öll undirstöðuatriði tónlistar og spilar nú á flest hljóðfæri og mörg þeirra afburða vel. Hann varð fyrstur íslenskra popptónlistarmanna til að fá listamannalaun frá Alþingi, en þegar “alvarleg” tónskáld buðu honum að gerast meðlimur í Tónskáldafélagi Íslands brást hann hinn versti við í fyrstu. Honum fannst nefnilega svolítill snobbþefur af því. Annars hefur hann fengið fleiri verðlaun og viðurkenningar en nokkur veit tölu á og hljómplöturnar sem hann hefur verið viðriðinn skipta orðið hundruðum.

Texti: Þorsteinn Eggertsson
Mynd: Þjóðviljinn


 

 

Einn virtasti tónlistarmaður þjóðarinnar

Gunnar Þórðarson

Gunnari Þórðarsyni tónlistarmanni er lýst sem hógværum manni sem lætur engan vaða ofan í sig, manni sem fer eigin leiðir bæði í samskiptum við aðra og í listinni. Gunnar varð sjötugur í byrjun mánaðarins og hefur glatt þjóðina með tónlist sinni í rúma hálfa öld.

Maðurinn sem breytti öllu

„Hann hefur breytt öllu fyrir íslenskt tónlistarlíf. Hann er án efa eitt besta tónskáld okkar,“ segir  Magnús Kjartansson tónlistarmaður. Haustið 2013 var haldið upp á  að hálf öld var frá því að Hljómar komu fram á sínu fyrsta balli í Krossinum í Keflavík.  Síðan má segja að saga Gunnars hafi verið samtvinnuð sögu þeirra sem byggja þetta land. Gunnar spilaði með Hljómum, Trúbroti, Ðe Lónlí Blú Bojs, hann hefur sent frá sér sólóplötur, stjórnað upptökum á hljómplötum og diskum, samið tónlist fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti og Sinfónían hefur flutt verk fyrir hann á tónleikum. Auk þess hefur hann  samið óperu.

Dægurperlur

Magnús Kjartansson

Gunnar hefur samið á sjöunda hundrað dægurlög. Hver man ekki eftir lögunum Bláu augun þín, Fyrsti kossinn, Gaggó vest, Harðsnúna Hanna, Þitt fyrsta bros, Vetrarsól svo örfá dæmi séu tekin. Í fyrra var frumflutt óperan Ragnheiður sem lyfti Gunnari á enn hærra plan sem tónskáldi. Fyrir þessa fyrstu óperu sína hefur hann hlotið einróma lof. „Hann hefur stöðugt verið að þróast sem tónskáld. En svona móralskt séð þá er Ragnheiður ljúfur löðrungur á akademíska geirann. Að hann skyldi toppa á stað sem ákveðinn akademískur hópur hafði eignað sér.  Götustrákar gera ekki svona,“ segir Magnús og hlær.

Enginn neitar Gunnari

„Hann er mjög virtur af kollegum sínum innanlands og utan. Þegar hann fór að spila með Hljómum var hann strax virtur af þeim sem voru tíu til tuttugu árum eldri en hann. Það hefur alltaf þótt mikill heiður að fá að spila með Gunnari. Það hefur enginn maður neitað að spila með honum eða syngja fyrir hann svo að ég viti,“ segir Ólafur Laufdal, veitingamaður og einn nánasti vinur og samstarfsmaður Gunnars í áratugi og bætir við að samstarf þeirra hafi verið einstakt. Það hafi aldrei orði hallað á milli

Ólafur Laufdal

þeirra. Gunnar var hljómsveitarstjóri á Broadway og Hótel Íslandi. Hann setti upp fjöldann allan af ógleymanlegum sýningum má þar nefna Abba-, Bee Gees-, Queen-, Söngbók Gunnars Þórðarsonar og fleiri. Fólk hætti ekki að koma og sumar sýningarnar voru sýndar oftar en hundrað sinnum. Margir af yngri tónlistarmönnum landsins stigu sín fyrstu spor í þessum sýningum má þar nefna Birgittu Haukdal og Jónsa, í hljómsveitinni Í svörtum fötum.

Ætti að syngja meira

„Hann er eldklár hljómsveitarstjóri, tónskáld og útsetjari,“ segir Ólafur. „Hann er líka góður söngvari, Gunnar hefur skemmtilegan söngstíl. Ég hef bent honum á að hann ætti að syngja meira, honum finnst það hins vegar óþarfi,“ segir Þorsteinn Eggertsson, textahöfundur.  „Hann á engan sinn líka hér á landi. Hann heyrir tónlistina öðruvísi en við hin. Hann gerir öðruvísi raddsetningar en allir aðrir,“ segir Helga Möller söngkona og bætir við að það sé afar gaman að glíma við raddsetningarnar hans. Ef eigi að flytja tónlist Gunnars biðji allir um nótur.  „Fyrir honum er þetta svo auðvelt og áreynslulaust, fyrir aðra er þetta heilaleikfimi,“ segir Helga.

Þéttur í lund

Þorsteinn Eggertsson

Menn greinir á þegar spurt er um persónuleika Gunnars Þórðarsonar, eitt eru þó allir sammála um en það er að maðurinn sé fastur fyrir.  Þorsteinn segir hann sé allt öðru vísi en flestir haldi. „Fólk heldur að hann sé hógvær og feiminn. Ég get hins vegar upplýst að hann er hvorugt,“ segir Þorsteinn.  „Gunnar er ljúfur en ofboðalega fastur fyrir, hann lætur ekkert stoppa sig, hann er bæði hreinskilin og beinskeyttur,“ segir Magnús.  „Hógvær og rólegur maður sem hefur þó töluvert skap ef hann þarf á því að halda. Þægilegur að vinna með,“ segir Helga og bætir við: „Gunnar á til að æsa sig, hann er fljótur upp og fljótur niður. Ef einhver gerir eitthvað á hans hlut er hann settur til hliðar um stund. Hann lætur engan stjórna sér.“

Sankar ekki að sér vinum

Þorsteinn segir að Gunnar hafi hætt að drekka upp úr þrítugu. „Áfengi átti það til að fara illa í hann en eftir að hann hætti að drekka hefur hann verið geðprýðismaður.“  Hann segir að Gunnar hafi þann sið að hlæja ef honum misklíkar við þá sem eru að vinna með honum. „Hann æsir sig ekki ef honum mislíkar eða eitthvað er ekki eins og það á að vera. Hann fer að hlæja og segir þetta gengur ekki, við skulum prófa eitthvað annað.“ Eitt annað segir Þorsteinn að fólk viti almennt ekki um Gunnar Þórðarson en það er að hann sé laumu húmoristi. „Það eru fáir útvaldir sem fá að njóta þess,“ segir hann. Þegar hann er spurður hvort að Gunnar sé vinamargur segir hann. „Ég held að hann sé ekki að sanka að sér vinum og kunningjum en hann er vinur vina sinna. Hann sækist ekki eftir vinsældum.“

Helga Möller

Fjölbreyttur ferill

Viðmælendum Lifðu núna ber saman um að Gunnar hafi verið í stöðugri þróun sem tónlistarmaður. Ferill hans sé ótrúlega fjölbreyttur og hann sé eiginlega jafnvígur á alla hluti. Allir voru spurðir hvort að þeir ættu uppáhaldslag sem hann hefði samið. Það sló þögn á viðmælendurna, góðu lögin væru svo mörg, og mörg þeirra í uppáhaldi þannig að það væri ekki hægt að nefna neitt sérstakt. Öll voru þau líka sammála um að hann væri einn alvirtasti tónlistarmaður þjóðarinnar. „Með fullri virðingu fyrir öðrum tónlistarmönnum þá er Gunnar Þórðarson sá virtasti af þeim öllum,“ segir Ólafur.

 

 

 

%d bloggers like this: